Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti munu eiga saman tvíhliða fund í þýsku borginni Hamborg í tengslum við fund leiðtoga G20-ríkjanna sem þar fer fram um helgina.
„Samkomulag hefur náðst um 7. júlí,“ er haft eftir Juri Usjakov, háttsettum embættismanni innan rússneska stjórnkerfisins, í rússneskum fjölmiðlum.
Talsmaður Bandaríkjastjórnar staðfesti í síðustu viku að þeir Trump og Pútín hygðust funda, þó að dagsetning lægi ekki fyrir. Dagskrá fundarins hefur ekki verið gerð opinber.
Greint var frá því í gær að Angela Merkel og Trump myndu funda í Hamborg á fimmtudag.
Rúmlega 20 þúsund lögreglumenn verða á vaktinni um helgina til að tryggja öryggi á fundinum, en meðal gesta verða Vladimír Pútín Rússlandsforseti, Xi Jinping Kínaforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, auk Merkel og Trump.
Trump og Pútín funda á föstudag

Tengdar fréttir

Merkel og Trump funda fyrir leiðtogafund G20
Samband Þýskalands- og Bandaríkjastjórnar hefur verið stirt eftir að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta í janúar síðastliðinn.