Skoðun

Heiðarleg, opin og skilvirk stjórnsýsla

Elvar Örn Arason skrifar
Markmiðið með stofnun Bjartrar framtíðar var að breyta stjórnmálunum á Íslandi og stuðla að góðum stjórnarháttum og gagnsærri stjórnsýslu. Björt framtíð hefur frá stofnun lagt ríka áherslu á heiðarlega, opna og skilvirka stjórnsýslu. Þetta var eitt af því sem flokkurinn lagði áherslu á að sett yrði inn í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar.

Íslendingar geta lært heilmargt af nágrannaþjóðunum á þessu sviði. Til að mynda Svíþjóð sem hefur komið sér saman um sex grunngildi sem veita opinberum starfsmönnum ákveðna leiðsögn um hvernig þeir eigi að haga störfum sínum. Sænskir borgarar eiga að geta gengið að því vísu að ákvarðanir sem teknar eru innan stjórnsýslunnar séu lögmætar, hlutlægni og jöfn málmeðferð sé viðhöfð óháð því hver á í hlut. Auk þess sem virðing sé borin fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi, virðing borin fyrir einstaklingnum og síðast en ekki síst að lögð sé áhersla á skilvirkni stjórnsýslunnar. Jöfn meðferð allra þegna innan stjórnsýslunnar óháð kyni, aldri, kynþætti eða lífsskoðunum er grundvallaratriði.

Þess vegna skiptir það höfuðmáli fyrir Bjarta framtíð, sem leggur ríka áherslu á mannréttindi, að það sé hafið yfir allan vafa að allir Íslendingar geti treyst því að hljóta sömu meðferð hjá opinberum stofnunum. Það er lykilatriði að tryggja að ákvarðanir sem teknar eru innan stjórnsýslunnar séu hafnar yfir hagsmuni einstakra stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka og sérhagsmuni útvalinna. Góð stjórnsýsla byggist á því að til staðar séu sameiginleg gildi og lögmál sem stofnanir ríkisins og opinberir starfsmenn hafa tileinkað sér.

Björt framtíð stefnir að því að halda áfram að bæta stjórnsýsluna með því m.a. að bæta viðmót og aðgengi almennings að stjórnsýslunni, opna bókhald ríkisins og efla upplýsingaskyldu opinberra aðila. Traust almennings og atvinnulífsins á stjórnsýslunni skapar stöðugleika, samheldni og ýtir undir almenna hagsæld.

 

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og skipar sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×