Þetta fór ekki framhjá neinum sem fletti sig í gegnum sunnudagsútgáfu Washington Post í gær. Þar mátti sjá heilsíðuauglýsingu frá Flynt og Hustler þar sem greint var frá peningagjöfinni. Greint var fyrst frá auglýsingunni á laugardag, þegar upplýsingar um hana láku úr ritstjórninni.
Auglýsinguna má sjá hér að neðan.

Auglýsingin segir að sama skapi að ef víkja ætti forsetanum úr embætti þyrfti „óvefengjanlegar“ upplýsingar og því væri Hustler og Flynt reiðubúin að láta slíka upphæð af hendi rakna.
Ástæðurnar margar og fjölbreyttar
Í auglýsingunni, sem er eiginlega ekkert nema texti, rekur Flynt ástæður þess að hann telur að Trump verði að víkja. Nefnir hann meðal annars brottvikningu fyrrverandi forstjóra FBI, James Comey, og yfirlýsingar forsetans um að Bandaríkin hafi dregið sig úr Parísarsamkomulaginu.
Þá nefnir hann jafnframt það sem hann segir lélegar yfirlýsingar Trump eftir samkomu nýnasistanna í Charlottesville. Tókst honum ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fordæma þjóðernissinnana sem urðu einni að konu að bana. Sökin lægi hjá „báðum fylkingunum“ að mati Trump og fór það öfugt ofan í marga.
Þá óttast Flynt jafnframt að Donald Trump skuli hafa, með sitt lundarfar, valdið til að hefja kjarnorkustríð. „Að víkja honum úr embætti yrði sóðalegt, umdeilt ferli en í samaburði yrðu þrjú ár í viðbót af óstöðugleika og vanhæfi ennþá verri.“
Áður boðið 100 milljónir
Flynt hefur áður heitið peningaverðlaunum hverjum þeim sem gæti reitt fram myndband sem sýndi þáverandi forsetaframbjóðandann Trump við „ólöglegt athæfi eða í lítillækkandi kynlífsathöfnum.“ Það gerði hann síðast í október í fyrra, mánuði fyrir kosningarnar vestanhafs, eftir að greint var frá mögulegri tilvist upptöku sem sýna átti Trump með vændiskonum á hóteli í Moskvu.
Þetta myndband hefur aldrei litið dagsins ljós og efast margir um tilvist þess. Því var Flynt tilbúinn að greiða milljón dali, rúmlega 100 milljónir króna, fyrir myndbandið - væri það til.