Skoðun

Nýjan spítala á betri stað

Valgerður Sveinsdóttir skrifar
Miðflokkurinn ætlar að byggja nýjan Landspítala á betri stað, en mismunandi raddir eru uppi um staðsetningu spítalans. Á nýlegum fundi sem haldinn var í Norræna húsinu um staðsetningu spítalans kom fram að sumir vilja keyra á uppbygginguna sem er hafin við Hringbraut vegna þess að þeir eru orðnir uppgefnir á nýjum og nýjum nefndum um staðsetningu spítalans og óttast að framkvæmdir geti tafist um 10-15 ár verði nýr staður fyrir valinu. Þó var ljóst að þegar þyrfti að huga að öðrum framtíðarspítala á nýjum stað á næstu áratugum.

Eldri forsendur fyrir spítala við Hringbraut voru nálægð við Háskóla Íslands, styrkja þyrfti miðbæinn, ýmis umferðarmannvirki myndu bæta aðgengi s.s. Sundabraut, mörg mislæg gatnamót og Miklabraut í stokk. Þetta eru úreltar forsendur og sé núgildandi aðalskipulag skoðað er miðja borgarinnar komin austur að Elliðaám.

Mikil hagræðing er í því fólgin að reisa nýjan spítala á nýjum stað. Fjárfestingarkostnaður er metinn um 20 milljörðum króna lægri sé byggt á nýjum stað miðað við Hringbraut. Rekstrarkostnaður mun einnig lækka um 3 milljarða króna á ári vegna sameiningar á einn stað og ferðakostnaður notenda lækka um einn milljarð árlega. Framtíðarspár benda eindregið til þess að ekki verði hægt að ná sameiningarhagræðingu við Hringbraut, því ekki verður hægt að loka í Fossvogi vegna fyrirsjáanlegs skorts á sjúkrarýmum.

Áætlað er að framkvæmdum við Hringbraut ljúki 2027. Sé farið strax í staðarvalsgreiningu fyrir nýjan og betri stað, má gera ráð fyrir að undirbúningur taki fimm ár og byggingarframkvæmdin önnur fimm. Þannig að heildarferlið taki tíu ár eða jafnvel skemmri tíma, sé vel að málum staðið.

Ríkið á land við Keldur sem er frábærlega staðsett samgöngulega séð með tengingu við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, Reykjanesbraut og fyrirhugaða Borgarlínu. Vífilsstaðir eru annar góður valkostur sem staðsettur er í miðju höfuðborgarsvæðisins með góðar tengingar við stofnbrautir.

Gott aðgengi að spítalanum er lykilatriði fyrir sjúklinga, sjúkraflutninga og starfsfólk. Með því að reisa nýjan spítala á betri stað má einnig komast hjá skertri þjónustu, gríðarlegu ónæði og heilsuspillandi aðstæðum fyrir sjúklinga og starfsfólk meðan á framkvæmdum stendur.

Miðflokkurinn ætlar að hefjast handa strax og byggja nýjan, vel búinn spítala til framtíðarnota.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×