Skoðun

Aðgerðaleysi …

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Ég hef lengi fylgst með þróun Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH). Síðan spítalinn sameinaðist Borgarspítalanum hefur staðið til að byggja upp nýjar byggingar við Hringbraut. Byggingarsaga spítalans er að verða ein sorgarsaga og uppbygging hans gengur alltof hægt, þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar stjórnmálamanna.

Aðgerðaleysi undanfarin ár í að byggja upp Landspítalann helst í hendur við fjársvelti heilbrigðisþjónustunnar. Afleiðing aðgerðaleysis og fjársveltis hefur bitnað á þjónustu og gæðum spítalans og allri annarri framþróun í heilbrigðisþjónustunni, ekki síst t.d. á uppbyggingu öldrunarþjónustu í landinu. Þrátt fyrir þá augljósu staðreynd sem hefur legið fyrir í áratugi að öldruðum fer fjölgandi, hafa stjórnmálamenn neitað að mæta þeirri þróun með stefnu í málaflokknum og beinum aðgerðum. Afleiðingin er sú að þjónusta við aldraða heldur ekki í við fjölgun þeirra og fer því versnandi.

Ein birtingarmynd þessa er að undanfarin ár hefur öldruðum sem „liggja fastir“ inni á LSH farið fjölgandi. Það þýðir að þessir sjúklingar fá ekki viðeigandi hjúkrunarþjónustu, annaðhvort á hjúkrunarheimili og/eða í heimahjúkrun. Nú er svo komið að um 100 aldraðir „liggja fastir“ m.a. á göngum, setustofum og í vinnurými starfsfólks á LSH. Fyrir tveimur árum lágu um 60 aldraðir „fastir“ inni á LSH.

Þessi staðreynd gerir það að verkum að ekki er hægt að reka spítalann á fullum afköstum, þar sem legurými eru teppt vegna úrræðaleysis varðandi hjúkrunarþjónustu við aldraða. Aðgerðaleysi og fjársvelti er m.a. vegna þess að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur aðeins til úthlutunar í stofnframkvæmdir 30% af því fjármagni sem sjóðurinn fær, því stjórnmálamönnum hefur tekist að láta 70% af því fé sem sjóðurinn fær renna til REKSTRAR hjúkrunarheimila!

Vegna þessarar manngerðu hringavitleysu, þarf að leggja til nokkra milljarða, jafnvel tug, til að byggja upp hjúkrunarrými og styrkja heimaþjónustu við aldraða, þannig að hægt sé að fjölga rýmum á spítalanum til að keyra hann á fullum afköstum!

 

Höfundur er heilsuhagfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×