Bandaríski leikarinn Dustin Hoffman þvertekur fyrir ásakanir þriggja kvenna sem segja hann hafa brotið kynferðislega á sér. Ein þeirra segir hann hafa nauðgað sér í aftursæti bifreiðar.
Hoffman var í upphafi þessa mánaðar sakaður um kynferðislega áreitni gegn þremur konum, þar á meðal 17 ára stúlku árið 1985. Konan hafði verið starfsnemi á tökustað og sagði hún leikarann hafa klipið í sig og rætt við sig opinskátt um kynlíf.
Ásakanirnar sem nú koma fram hafa ekki áður ratað í fjölmiðla. Tvær kvennanna segja Hoffman hafa brotið á sér kynferðislega - önnur þeirra lýsir því hvernig hann nauðgaði henni eftir teiti - en sú þriðja greinir frá kynferðislegu athæfi leikarans í hennar garð.
Sjá einnig: Dustin Hoffman sakaður um kynferðislega áreitni gegn 17 ára stúlku
Cori Thomas, æskuvinkona dóttur leikarans, segir Hoffman hafa berað sig fyrir henni eftir að þau þrjú snæddu saman kvöldmat á hótelinu þar sem hann dvaldi. Meðan þau biðu eftir því að foreldrar Thomas kæmu og náðu í hana hafi Hoffman komið nakinn út af baðherberginu og vísvitandi látið handklæðið sem huldi kynfæri hans falla.
Thomas lýsir því í samtali við Variety hvernig hún hafi frosið og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Leikarinn hafi heldur ekkert verið að drífa sig í föt. Hann hafi staðið kviknakinn fyrir framan hana í lengri tíma. Eftir það hafi hann snarað sér í baðslopp og beðið stúlkuna að nudda á sér tærnar. Hann hafi jafnframt þráspurt Thomas hvort hún vildi sjá á sér liminn.
Önnur kona, Melissa Kester, lýsir því hvernig Hoffmann stakk fingri ofan í nærbuxurnar hennar meðan þau unnu saman að upptöku á lagi fyrir kvikmyndina Ishtar. „Hann stakk fingrinum inn í mig,“ segir Kester og bætir við að hún hafi frosið.
Sjá einnig: John Oliver grillaði Dustin Hoffman vegna ásakana um kynferðislega áreitni
Kærastinn hennar hafi verið í hljóðverinu en ekki séð hvað gekk á. Hún segist ekki hafa haft það í sér á því augnabliki að láta kærastann vita og að eftir upptökuna hafi hún hlaupið inn á klósett og grátið. Á meðan hafi Hoffmann hlegið. Eftir tökurnar hafi hann svo ítrekað reynt að hafa samband við hana.
Þriðja konan, sem vildi ekki koma fram undir nafni, segir Hoffman hafa nauðgað sér í aftursæti bifreiðar eftir teiti þar sem lokatökudegi á fyrrnefndri Ishtar var fagnað.
Hoffman hefur ekki tjáð sig um ásakanirnar en lögmaður hans segir allar sögurnar vera uppspuna.