Skoðun

Þú og ég töpum á brottkasti

Álfheiður Eymarsdóttir og Gunnar Ingiberg Guðmundsson skrifar

Brottkast og endurvigtun eru alvarlegt en nokkuð dulið vandamál. Þetta eru umhverfismál en þau bitna líka fjárhagslega bæði á sjómönnum og þjóðinni allri. Minni afli á land og í bókhaldið gefur af sér minna aflaverðmæti. Sjómenn fá þá minna í sinn hlut og þjóðin verður af skatttekjum.



Umfjöllun Kveiks um brottkast, endurvigtun og annan subbuskap við fiskveiðar í nóvember vakti mikla athygli.



Sérfræðingar hafa bent á leiðir til að sporna við þessum vanda, m.a. úrbætur á lögum og reglum, aukið eftirlit og hert viðurlög. Bent hefur verið á að kvótakerfið sé með innbyggða hvata til brottkasts sem þarf að fjarlægja með lagabreytingum. Hugmyndir um hvata til þess að koma með allan fisk að landi eru áhugaverðar og þarf að skoða betur. Aukið eftirlit getur falið í sér tíðari heimsóknir eftirlitsaðila um borð en einnig sjálfvirkar myndavélar um borð í öllum bátum og skipum. Þá hafa eftirlitsaðilar bent á að erfið sönnunarbyrði og bitlaus viðurlög við brotum geri það að verkum að brottkast sé meira en ella.



Leyfi til endurvigtunar á eigin afla er dæmi um kerfisgalla sem er auðvelt að lagfæra. Það er óþarfi að sanna svindl af þessu tagi. Það nægir að möguleiki á svindli er til staðar, innbyggður í kerfið. Flestir hljóta að sjá gallana sem fylgja því að leyfa eiganda aflans að endurvigta hann. Þetta er skýr kerfisgalli sem hægt er að koma í veg fyrir með einfaldri lagabreytingu þess efnis að afnema alla endurvigtun og setja þess í stað fasta ísprósentu á allar aflategundir.



Það eru kostir og gallar við þessar lausnir en við Píratar erum sammála um að óbreytt ástand er óásættanlegt. Píratar njóta nú liðsinnis Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu til þess að ræða lausnir á vandanum. Það er brýnt að vandinn verði leystur og mikilvægt að Íslendingar séu til fyrirmyndar í allri umgengni við sjávarauðlindina.

 



Álfheiður Eymarsdóttir er varaþingmaður Pírata.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson er Pírati.

 



 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×