Samtök atvinnulífsins skora á fyrirtæki að taka á kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sínum. Umræðan í kjölfar #MeToo undanfarið um kynferðislega áreitni og ofbeldi hafi leitt í ljós að vandinn er stærri og brotahegðunin algengari en áður var talið.
Mikilvægt sé að stjórnendur fyrirtækja skoði vinnustaðamenningu á vinnustöðum sínum, bæti hana, dragi úr hættu á særandi framkomu og setji málefni þolenda í forgang þegar brot koma upp.
Meginskylda vinnuveitenda er að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi. Að sama skapi er það á ábyrgð vinnuveitanda að fyrirbyggja og uppræta áreiti og ofbeldi á vinnustöðum.
Að lokum bendir SA á leiðbeiningarefni sem Vinnueftirlitið gaf út árið 2016 en það má nálgast hér.
Fjölmargar konur hafa stigið fram í svokallaðri #MeToo byltingu og greint frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í starfi. Nú þegar hafa konur innan fjölmiðla, sviðlista- og kvikmyndagerðar, stjórnmála, vísinda, tæknigeirans, réttarvörslu og tónlistar stigið fram og lýst reynslu sinni.

