Verðathuganir Fréttablaðsins hafa sýnt að verð á völdum vörum hefur verið að hækka jafnt og þétt undanfarna mánuði auk þess sem meðlimir hafa kvartað sáran yfir gríðarlegum hækkunum á hinum ýmsu vörum á samfélagsmiðlum. Margir meðlimir hafa hótað því að endurnýja ekki aðildarkort sín þegar þau renna út á næstu mánuðum.
Fréttablaðið leitaði skýringa á þessum hækkunum hjá stjórnendum Costco og í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins segir Barnett að þær séu nokkrar. Barnett segir að frá opnun hafi verð vissulega hækkað en einnig lækkað af ýmsum ástæðum. „Við erum að flytja inn vörur frá fjölda landa um allan heim og það hafa verið þó nokkrar sveiflur í gengi gjaldmiðla frá opnun sem hafa orðið til þess að við höfum neyðst til að hækka verð. Ég vil þó benda á að af sömu ástæðu höfum við einnig getað lækkað verð, í einhverjum tilfellum. “
Sjá einnig: Matarkarfan hækkar í verði
Forsendur flutningsleiða hafa einnig haft nokkuð að segja að sögn Barnetts. Costco hafi neyðst til að nota flug í meiri mæli en gert hafði verið ráð fyrir.

Barnett segir að þá hafi Costco neyðst til að halda aukalager af vinsælustu vörum verslunarinnar í tímabundnu geymsluhúsnæði til að tryggja að eiga nóg af viðkomandi vörum. „Þetta hefur einnig átt sinn þátt í auknum kostnaði,“ segir Barnett.
Svo virðist sem virkt aðhald og verðsamanburður fjölmiðla og almennings á Íslandi hafi ekki farið fram hjá stjórnendum Costco erlendis. Barnett segir að verðsamanburðurinn hafi í sumum tilfellum verið á vörum sem hafi tímabundið hillulíf og renni út (e. date sensitive items).
Í þeim tilfellum þar sem vara nálgast það að renna út lækki Costco verð á þeirri vöru til að tryggja að neytendur fái samt sem áður gott verð. Aðferð Costco við þessar breytingar hafi þó valdið ruglingi. „Upphaflega breyttum við einfaldlega verðinu og margar vörur sem fólk hefur verið að benda á eru afrakstur þessa. Til að forðast rugling gefum við nú upp upphaflegt verð og afsláttinn bæði á hillumerkingum og kvittun. “
Barnett segir að lokum að Costco stundi virkt eftirlit með verðlagi til að tryggja meðlimum sínum lægra verð og betri kjör.