Skoðun

Hrútskýringar Framsóknarmanna um HSS í Reykjanesbæ

Guðný Birna Guðmundsdóttir og Guðrún Ösp Theodórsdóttir skrifar
Í ljósi aðsendrar greinar í Víkurfréttum í Reykjanesbæ fundum við frambjóðendur Samfylkingarinnar okkur knúnar að svara fullyrðingum sem þar voru settar fram af oddvita Framsóknarflokksins. Ljóst er að greininni er ætlað að upphefja fyrirætlanir umrædds flokks í heilbrigðismálum nú rétt fyrir sveitastjórnakosningarnar auk þess að kasta rýrð á Guðnýju Birnu hjúkrunarfræðing við HSS og bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Hver er vandinn?

Aðalvandamál HSS er skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum, eins og á flestum heilbrigðisstofnunum landsins. Að sjálfsögðu erum við ekki að halda því fram að núverandi ástand heilsugæslunnar sé gott og höfum aldrei gert. Þjónustan á heilsugæslunni okkar þarf að vera betri. Íbúar bíða lengi eftir tímum hjá læknum, fara oftar á síðdegisvaktina og fylla slysa- og bráðamóttökuna til að komast til læknis eða hjúkrunarfræðings samdægurs.

Hvað varðar ætlaðar rangfærslur Guðnýjar Birnu um greinarmun á sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu skal það tekið sérstaklega fram að slysa- og bráðamóttaka HSS tilheyrir heilsugæslunni, ekki sjúkrahússviðinu.

Hvað varðar að koma ekki inn á skýrslu Landlæknis skal það tekið fram að Guðný Birna skrifaði greinina „Engin spurning að öryggi sjúklinga er ógnað“ þar sem hún skrifar sérstaklega um úttekt landlæknis á HSS.

Við höfum reynt að fá samfélagið með okkur í lið til að knýja fram breytingar og fá aukinn skilning á stöðu stofnunarinnar til lengri tíma. Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fékk Aton ráðgjöf til að bera saman fjárframlög til stofnunarinnar miðað við aðrar stofnanir á landinu. Meistararannsókn Guðnýjar Birnu, sem kemur út síðar í sumar, bar saman fjármagn ríkisins annars vegar til Reykjanesbæjar og hins vegar til Akureyrar þar sem HSS er sérstaklega tekin fyrir. Báðar skýrslurnar leiða berlega í ljós mismunun í fjárframlögum ríkisins.

Óskýr stefna Framsóknar

Við veltum fyrir okkur hvað Framsóknarmenn eiga við með breytingum á stjórnunarfyrirkomulagi á HSS með aðkomu bæjarstjórnar Reykjanesbæjar án fjárútláta.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er stofnun sem rekur heilsugæslu og sjúkrahús saman. Ýmsar stoðdeildir eru samnýttar svo sem rannsóknarstofa og myndgreining. Fjöldi fagfólks starfar á HSS og sinnir skjólstæðingum stofnunarinnar í heild. Starfsfólkið þar hefur staðið sig frábærlega á erfiðum tímum, verið í fararbroddi með nýjungar í þjónustu og býður upp á framúrskarandi sykursýkismóttöku og hjúkrunarmóttöku. Ætla Framsóknarmenn að rifta samstarfinu sem ríkir á stofnuninni?

Við heyrum bara talað um of langa bið og of fáa lækna, ætla Framsóknarmenn að vera bara með lækna á nýju heilsugæslunni? Mun engin hjúkrun eiga sér stað? Gera þeir sér grein fyrir að í raun sýna hjúkrunarfræðingar og fagfólk í stoðþjónustu mesta tryggð við stofnunina? Ætla þeir að reka rannsóknarstofu? Verða þeir með röntgendeild? Sólarhringsþjónustu? Hvar ná þeir í lækna og hjúkrunarfræðinga inn í reksturinn þar sem landlæg mannekla er í þessum stéttum á Íslandi? 



HSS þjónustar stærra svæði en Reykjanesbæ, ætla Framsóknarmenn að gera samning við að sinna íbúum Sandgerðis, Garðs, Grindavíkur og Voga eða ætla þeir einungis að sinna Reykjanesbæ?

Hagnaður í heilsubresti?

Íslenska ríkið greiðir 25.000 krónur með hverjum sjúklingi sem leitar sér heilbrigðisþjónustu. Ekki er ljóst né skilgreint hver borgi kostnað umfram það. Að öllum líkindum lendir sá kostnaður á ríkisstofnunum, ekki á einkareknu stofunum.

Að leggja megináherslu á að einkavæðing heilsugæslu skili hagnaði vekur mann til umhugsunar. Af hverju ættum við að hagnast á veikindum annarra? Ætlum við að breyta heilsugæslum Íslands eingöngu til þess að græða á þeim? Ætlum við í kjölfarið að gera heilbrigðiskerfið okkar hagnaðardrifið líkt og í Bandaríkjunum þvert á fyrirætlanir heilbrigðisráðherra?

Óljóst er hvernig Framsóknarmenn ætla að yfirtaka heilsugæslu HSS. Skýr samskipti og vandlegur undirbúningur er lykilatriði þegar unnið er með líf einstaklinga. Það er hættulegt að mæta óundirbúinn í útkall og sýna fljótfærni, við hjúkrunarfræðingarnir vitum það.

Við búum báðar yfir áratuga reynslu sem hjúkrunarfræðingar á HSS. Við erum búnar að vera að berjast fyrir bættri þjónustu HSS lengur en í mánuð eins og sjá má af ítrekuðum greinaskrifum okkar í gegnum árin og erum hvergi nærri hættar. Það er annað en Framsóknarmenn sem byrja fyrst að tala um HSS korter í kosningar og níða skóinn af okkur sem höfum barist fyrir tilvist og eflingu HSS í meira en áratug.

Íbúar Reykjanesbæjar eiga annað og betra skilið.

Guðný Birna Guðmundsdóttir, MSc í heilbrigðisvísindum og MPA í opinberri stjórnsýslu.

Guðrún Ösp Theodórsdóttir, MSc í bráðahjúkrun.

Höfundar skipa 2. og 5. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Eflum heilsugæsluna og HSS frá 2014 eftir Guðnýju Birnu - https://www.vf.is/adsent/eflum-heilsugaesluna-og-hss/62125

Besta heilbrigðiskerfi í heimi? Frá 2016 eftir Guðnýju Birnu - https://www.vf.is/vikurfrettir-i-30-ar/besta-heilbrigdiskerfi-i-heimi/71677

Eiga Suðurnesjamenn ekki rétt á sömu heilbrigðisþjónustu og aðrir? Frá 2017 eftir Guðnýju Birnu - http://www.vf.is/frettir/eiga-sudurnesjamenn-ekki-rett-a-somu-heilbrigdisthjonustu-og-adrir/76931

Staða heilbrigðis á Suðurnesjum frá 2017 eftir Guðnýju Birnu - https://www.vf.is/adsent/stada-/81148

Suðurnesjamenning frá 2010 eftir Guðrúnu Ösp - https://www.vf.is/adsent/-sudurnesjamenning/45302

Heilsu og öryggi Suðurnesjamanna ógnað frá 2010 eftir Guðrúnu Ösp - https://www.vf.is/adsent/heilsu-og-oryggi-sudurnesjamanna-ognad/43130

Ályktun frá hjúkrunarráði HSS frá 2012 eftir Guðrúnu Ösp - https://www.vf.is/adsent/alyktun-fra-hjukrunarradi-hss/54392

Opið bréf til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra frá 2012 eftir Guðrúnu Ösp - http://www.vf.is/frettir/opid-bref-til-gudbjarts-hannessonar-velferdarradherra/54316




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×