Neðri deild kanadíska þingsins samþykkti einróma að fordæma árásir Donalds Trump Bandaríkjaforseta og ráðgjafa hans á Justin Trudeau, forsætisráðherra. Þingmennirnir telja persónuárásir þeirra skaða tvíhliða samskipti nágrannaríkjanna.
Trump sakaði Trudeau um tvískinnung eftir G7-leiðtogafundinn sem fór fram í Kanada um síðustu helgi. Sagði hann kanadíska forsætisráðherrann „mjög óheiðarlegan og veikan“. Peter Navarro, efnahagsráðgjafi Trump, gekk enn lengra í sjónvarpsviðtali og sagði „sérstakan stað í helvíti“ fyrir Trudeau vegna meintra svika hans við Trump.
Stjórnarandstöðuflokkurinn Nýju demókratarnir lagði fram þingsályktunartillögu um að fordæma persónuárásirnar á mánudag. Hún var samþykkt einróma. Þingmenn gáfu ríkisstjórninni einnig standandi lófaklapp fyrir viðbrögð hennar við árásum ríkisstjórnar Trump á Trudeau, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Það voru orð Trudeau um að Kanadamenn létu ekki ráðskast með sig með tolla á blaðamannafundi eftir að Trump hafði yfirgefið G7-fundinn sem fór svo mjög fyrir brjóstið á Bandaríkjaforseta og fylgitunglum hans.
Ekkert nýtt var þó í yfirlýsingum Trudeau á blaðamannafundinum. Sambærileg ummæli hafði hann látið falla í bandarískum fjölmiðlum vikuna fyrir G7-fundinn og við Trump sjálfan eftir að bandaríska ríkisstjórnin setti verndartolla á innflutt stál og ál.
Ofsi bandarískra ráðamanna í garð nágranna sinna og nánustu bandamanna hefur almennt fallið í grýttan jarðveg í Kanada. Þar hefur jafnvel verið kallað eftir sniðgöngu á bandarískum vörum.
Kanadíska þingið fordæmir Trump og félaga

Tengdar fréttir

Ráðgjafi Trump segir Trudeau hafa stungið forsetann í bakið
Annar ráðgjafi forsetans segir „sérstakan stað í helvíti“ fyrir forsætisráðherra Kanada.

Andar köldu milli Bandaríkjanna og Kanada eftir G7 ráðstefnuna
Að mati stjórnar Donalds Trump er sérstakur staður í helvíti fyrir kanadíska forsætisráðherrann Justin Trudeau. Framganga hans á blaðamannafundi reitti stjórnvöld í nágrannaríkinu til reiði.

Trudeau segir að Trump muni ekki ráðskast með Kanadamenn
Ég mun alltaf vernda kanadíska verkamenn og hagsmuni Kanada, sagði forsætisráðherra Kanada.

Evrópa og Kanada verða að taka af skarið um stefnu heimsins
Stjórnmálafræðingur og fyrrverandi ráðherra leggja mat á stöðu vestrænnar samvinnu eftir spennuþrunginn G7-fund um helgina.