Saga auðlinda í almannaeigu er þyrnum stráð. Breski hagfræðingurinn William Forster Lloyd kallaði þetta harmleik almenninganna (e. the tragedy of the commons). Þegar eitthvað er í eigu allra hefur enginn hagsmuni af því að ganga vel um það. Þótt auðlindir séu í eigu einstaklinga er ekki þar með sagt að þeir geti gert við þær það sem þeim sýnist. Ríkið stýrir nýtingu á landi og auðlindum með lögum. Það dettur engum í hug að leggja eitthvað annað til. Ég get hins vegar deilt því með Ögmundi að erfiðu dæmin liggja á jaðrinum. Mér finnst í lagi að erlendir aðilar eigi nokkur prósent af landinu. Mér hugnast sýnu verr að þeir eigi nokkra tugi prósenta. Ég get ekki sætt mig við að landið verði í erlendri eigu. Alhæfingar eru nefnilega svo erfiðar.
Hvati til langtímahugsunar
Ögmundur nefnir réttilega að auðlindir fylgi eignarrétti að landi. Þannig hefur það verið í þau rúmlega í 1.100 ár sem við höfum búið á þessu landi. Allan þann tíma hafa auðlindir verið í eigu einstaklinga og verið nýttar af þeim. Það er erfitt að gera eitthvað vel, sérstaklega samfleytt í rúmlega 1.100 ár, en heilt á litið hefur þetta bara gengið ljómandi vel. Það hefur enginn meiri hagsmuni af ábyrgri og sjálfbærri nýtingu auðlindar heldur en eigandi hennar.Séreignarréttur skapar hvata til langtímahugsunar. Væntanlega sér Ögmundur fyrir sér að menn eins og hann, stjórnmálamenn, eigi að stýra landi og auðlindum fyrir fólkið. Stjórnmálamenn hugsa hins vegar sjaldnast lengur en til fjögurra ára og sú langtímahugsun fer minnkandi eftir því sem líður á kjörtímabilin. Við verðum að standa vörð um eignarréttinn – eins og við Ögmundur getum rætt yfir kaffibolla.