Þingflokksformaður Íhaldsflokksins og varaformenn þingflokksins hafa verið beðnir um að fresta öllum fundum sem þeir höfðu áformað í kjördæmum sínum í dag og koma aftur til London.
Fréttastofa Sky greinir frá þessu og hefur heimildarmanni á skrifstofu þingflokksformannsins.
Mikil ólga er í Íhaldsflokknum vegna draga að Brexit-samningi ríkisstjórnar Theresu May, forsætisráðherra og formanns flokksins.
Þingmenn sem eru miklir Brexit-sinnar eru afar ósáttir við samninginn og hafa rætt opinskátt um það að lýsa yfir vantrausti á May. Heimildarmaður Sky segir að vantrauststillaga sé nú líkleg.
Á meðal þeirra sem sögðu af sér í gær vegna Brexit-samningsins var Dominic Raab, ráðherra Brexit, í ríkisstjórn May.
Talið var að Michael Gove, umhverfisráðherra og harður Brexit-sinni, myndi mögulega segja af sér í dag en af því verður ekki.
Greint er frá því á vef BBC og haft eftir heimildarmönnum að Gove muni ekki hætta þar sem hann vilja vinna með kollegum sínum að því að tryggja bestu útkomuna fyrir Bretland.
Gove á að hafa hafnað boði May um að taka við Brexit í ríkisstjórn hennar en sagt henni að hann myndi taka við embættinu ef hann fengi umboð til þess að semja um breytingar á drögum samningsins. May og leiðtogar ESB hafa sagt að slíkt komi ekki til greina.
