Gengi íslensku krónunnar veiktist nokkuð myndarlega í dag. Gengisvísitala krónunnar, vegið meðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu, er nú rúmlega 185 en var tæplega 183 við lokun markaða í gær.
Hefur þetta endurspeglast í styrkingu helstu viðskiptamynta. Til að mynda gengi evrunnar sem styrkst hefur um 1,3 prósent gagnvart krónunni í dag, bandaríkjadalurinn hefur styrkst um rúmt 1,1 prósent en gengi hástökkvara dagsins, breska pundsins, hefur styrkst um næstum 1,9 prósent frá því í morgun. Miðgengi evrunnar er nú um 138 krónur, dalsins rúmlega 123 krónur og pundsins 159 krónur.
Veiking krónunnar gangvart þessum helstu gjaldmiðlum hefur verið umtalsverð á síðastliðnu ári. Heildarveikingin gagnvart bandaríkjadalnum nemur nú um 18,5 prósentum á ársgrundvelli, 14,7 prósent gagnvart evru og næstum 16,5 prósentum gagnvart pundinu.
