Skoðun

Bíðum ekki í hundrað ár! 

Ögmundur Jónasson skrifar
Eftir hundrað ár verða án efa skrifaðar bækur um hremmingar Kúrda fyrr á tíð. Þá verður vonandi afstaðin sú ofsóknarbylgja sem nú skellur á þeim í byggðum þeirra í Suðaustur-Tyrklandi og Norður-Sýrlandi. Þá munu fjöldamorðin, limlestingarnar, nauðganirnar, frelsissviptingin, heimilismissirinn, atvinnumissirinn – allt af mannavöldum, þykja efni í sögulegan fróðleik frá fyrri tíð.

Við eigum hins vegar ekki að bíða framtíðarinnar til að gráta hlutskipti Kúrda í fortíðinni.

Parísardómstóllinn, sá hinn sami og þeir Bertrand Russell og Jean-Paul Sartre settu á laggirnar á sjöunda áratug síðustu aldar til að rannsaka stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Víetnam og síðan hefur tekið fyrir fjölda annarra ámóta viðfangsefna, komst að þeirri niðurstöðu í fyrra eftir ítarlegar vitnaleiðslur að óyggjandi væri að framdir hefðu verið stórfelldir stríðsglæpir í Kúrdahéruðum Tyrklands.

Vitað er að hið sama er að endurtaka sig í Kúrdahéruðum Norður-Sýrlands og fer spennan vaxandi þessa dagana, eins og fram hefur komið í fréttum. Þarna hafa Tyrkir verið í slagtogi með ISIS-sveitunum illræmdu um nokkurt skeið þótt stundum hafi þeir reynt að leika tveim skjöldum. Eftir að innrás þeirra hófst í janúar í fyrra og eftir að þeir náðu Afrin á sitt vald, var ekki lengur blöðum um að fletta hve náið samstarf Tyrkja var við ISIS. Kúrdar, kristnir menn og gyðingar voru hraktir frá heimilum sínum í Afrin og þau fengin ISIS-liðum í hendur. Hinar galvösku Kúrdakonur, annálaðar fyrir staðfestu og hugdirfsku í stríðinu við ISIS, voru komnar á bak við slæður og búrkur að valdboði innrásarhersins og ISIS.

Og þá er spurningin, hvers vegna bíða í hundrað ár til að lesa um ofbeldi fyrri tíðar? Hví ekki mótmæla núna á meðan ofbeldið á sér stað?

Tvö vitni frá Parísardómstólnum verða á opnum klukkutíma fundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu á laugardag. Fyrsta skrefið er að kynna sér málavöxtu. Það stendur til boða á laugardag.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×