Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið kom út hinn 10. desember síðastliðinn. Þar er lagt til að kannaður verði möguleikinn á því að selja Íslandsbanka í heild eða að hluta til erlends banka. Þá leggja höfundar til að hafinn verði undirbúningur á sölu á hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum einnig.
Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún vilji losa um eignarhald ríkisins á bönkunum. „Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun,“ segir þar.
Í stefnuyfirlýsingunni segir einnig að ríkisstjórnin ætli ekki að taka neinar stefnumarkandi ákvarðanir um fjármálakerfið fyrr en hvítbókin hefur verið lögð fram á Alþingi. Hvítbókin hefur ekki verið lögð fyrir Alþingi og því hefur engin umræða farið fram á þeim vettvangi um efni hennar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er stefnt að sérstakri umræðu um hvítbókina snemma á vorþingi.

Kolbeinn segir engan veginn sjálfgefið hvað eigi að selja og hvernig. Velta þurfi upp öllum kostum hvað fjármálakerfið varðar og spyr hvort rétt sé að sameina Landsbankann og Íslandsbanka.
„Því miður hefur umræðan eingöngu snúist um að það þurfi að drífa í því að selja banka. Menn eru búnir að reikna út hvað fáist fyrir þá og jafnvel byrjaðir að eyða peningunum sem fást fyrir sölu bankanna án þess að ræða hvernig eigi að gera þetta. Í stjórnarsáttmálanum er mjög skýrt að ríkissjóður verði leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun og þetta er bara umræða sem þarf að fara af stað. Á að gera eitthvað í bankakerfinu?“ spyr Kolbeinn í samtali við fréttastofu.
„Eigum við að sameina Íslandsbanka og Landsbankann og búa til eina stóra bankastofnun sem yrði að meirihluta í eigu ríkisins? Eigum við að fara út í hugmyndir um samfélagsbanka? Það er þarna sem umræðan á að vera núna. En ekki á hinum endanum um að menn séu farnir að eyða peningum fyrir sölu banka sem er ekki einu sinni búið að ákveða,“ segir Kolbeinn.