Þingmenn á breska þinginu munu síðar í dag greiða atkvæði um hvaða leið skuli fara hvað varðar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og ganga þannig fram hjá vilja forsætisráðherrans Theresu May. Þingmennirnir tóku tímabundið dagskrárvaldið af forsætisráðherranum á dögunum.
May sjálf ætlar hins vegar að hitta þingmenn Íhaldsflokksins og reyna enn og aftur að sannfæra þá um að greiða atkvæði með útgöngusamningnum, sem þegar hefur verið felldur í þinginu í tvígang.
Samninginn verður að samþykkja, ætli Bretar sér að fá lengri frest til útgöngunnar. Verði hann samþykktur fá þeir frest til 22. maí, en verði hann felldur, fara Bretar út samningslausir þann 12. apríl næstkomandi.
Í frétt BBC segir margir séu á því að til þess að May fái samninginn samþykktan verði hún að nefna þá dagsetningu hvenær hún ætli sér að láta af starfi forsætisráðherra.
Líklegt er talið að umræðurnar og atkvæðagreiðslurnar muni standa fram í næstu viku.
