Írski lýðveldisherinn sér Brexit sem tækifæri

Norður-Írland hefur verið í brennidepli vegna útgöngunnar. Umdeildasti hluti útgöngusamnings Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við ESB er sá sem varðar svonefnda baktryggingu á Írlandi. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæraeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands.
Óttast hefur verið að hörð landamæri á milli Norður-Írlands og Írlands gæti kynnt aftur undir trúardeilum á milli kaþólikka og mótmælenda á Norður-Írlandi og að þau gætu ógnað friðarsamkomulaginu sem skrifað var undir á föstudaginn langa árið 1998.
Nú segja leiðtogar Nýja írska lýðveldishersins, eins nokkurra lítilla hópa sem er andsnúinn friðarsamningnum og berjast gegn yfirráðum Breta á Norður-Írlandi, að Brexit sé tækifæri fyrir þá.
„Brexit hefur neytt IRA til þess að einbeita sér aftur og undirstrikað að Írland er enn sundrað. Það væri kæruleysi af okkur að nýta okkur ekki þetta tækifæri. Þetta hefur sett landamærin aftur á dagskrána,“ hefur Sunday Times eftir einum leiðtoga samtakanna.
Nýi írski lýðveldisherinn hefur viðurkennt að hafa borið ábyrgð á morðinu á Lyru McKee, 29 ára gamalli blaðakonu, í Londonderry í síðustu viku. McKee fylgdist með óeirðum þar sem liðsmenn samtakanna skutu á lögreglumenn þegar hún varð sjálf fyrir skoti.
Reuters-fréttastofan segir að samtökin séu mun minni en upphaflegi Írski lýðveldisherinn sem afvopnaðist eftir friðarsamningana. Nýi írski lýðveldisherinn var stofnaður árið 2012 með samruna þriggja af fjórum helstu samtökum írskra þjóðernissinna.
„Svo lengi sem Bretar eru á Írlandi og landið er hlutað í sundur verður IRA til staðar,“ hefur blaðið eftir leiðtoga hópsins.
Tengdar fréttir

Kona á sextugsaldri handtekin í tengslum við dauða McKee
Kona á sextugsaldri hefur verið handtekin í tengslum við drápið á norðurírsku blaðakonunni Lyru McKee.

Nýi írski lýðveldisherinn tekur ábyrgð á drápinu á Lyru McKee
Nýi írski lýðveldisherinn hefur tekið ábyrgðina á drápinu á blaðakonunni Lyru McKee sem var skotin í höfuðið á fimmtudaginn var þegar hún var að fylgjast með óeirðum í hverfi í norður-írsku borginni Londonderry.

Blaðamaður skotinn til bana í óeirðum í Londonderry
Norður-Írskur blaðamaður, Lyra McKee, var í gærkvöld skotin til bana í Londonderry þar sem hún fjallaði um óeirðir sem geisuðu í Creggan-hverfi borgarinnar í gærkvöld. Lögregla rannsakar morðið sem hryðjuverk. McKee varð fyrir skoti sem grímuklædds byssumanns er hún stóð nærri lögreglunni í Londonderry.

Tveir unglinspiltar handteknir vegna morðs á blaðamanni
Tveir unglingspiltar hafa verið handteknir í tengslum við morðið á blaðamanninum Lyru McKee, sem skotin var til bana í mótmælum í Londonderry á fimmtudag.

Birtu myndband af morðingja blaðakonu í Norður-Írlandi
Lögreglan í Norður-Írlandi hefur birt myndband af morðingja blaðakonunnar Lyra McKee sem skotin var til bana þegar óeirðir áttu sér stað í borginni Londonderry í gær.