Skoðun

Andinn og vandinn

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Spánn er merkilegt land sem markað er af andans mönnum og konum frá örófi alda. Hér var Averoes að gera því skóna í ræðu og riti á 12. öld að siðfræði heimspekinnar væri æðri siðfræði trúarinnar meðan annars staðar var bannað að draga trúna í efa. Í Toledo voru menn að þýða gríska heimspeki meðan norðar í álfunni töldu menn að Aristóteles væri hundategund. Hér var fyrsta skáldsagan rituð snemma á 17. öld sem enn í dag er eitt af betri skáldverkum heims. Í dag er hér líka einn af betri stjórnmálamönnum samtímans, Manuela Carmena, sem kom að hryllilegu spillingarbæli þegar hún tók við sem borgarstjóri í Madrid fyrir fjórum árum. Fyrirrennarar hennar, Lýðflokksmenn, höfðu ekki aðeins rænt í áraraðir og komið borginni í ótæpilega skuldasúpu heldur einnig selt hrægammasjóðum fjöldann allan af félagsíbúðum.

Hún hefur upprætt spillingarkerfið og skilað hagnaði sem er nýtt þar í borg enda spillingin dýr. Samt missti hún meirihlutann í síðustu kosningum meðan þjóðrembur og gamli spillingarflokkurinn fengu ágæta kosningu. Hvernig stendur á því?

Jú, Spánn glímir við þann erfðaeiginleika, þrátt fyrir allt andans fólkið, að frá örófi alda hafa ávallt verið til menn og konur sem hafa viljað koma umburðarlyndi og víðsýni fyrir kattarnef. Þjóðin stundar því vegasalt milli þessara tveggja afla og mætti segja að þegar mest liggi við fari hlunkarnir þeim megin sem hrokinn ræður. Spænsk saga en nefnilega vörðuð Trumpum sem ætluðu að gera landið einsleitt og glæst. Í raun eigast þessi öfl einnig við á Íslandi. Hvorum megin hlammar þú þínum rasskinnum þá?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×