Actavis var árið 2011 annar stærsti framleiðandi ópíóðalyfja á bandarískum markaði. Bandaríska lyfjaeftirlitið var á þessum tíma farið að auka eftirlit sitt með dreifingu og sölu slíkra lyfja vegna ópíóðakrísunnar þar í landi. Þetta kemur fram í umfjöllun Washington Post og greindi RÚV fyrst frá íslenskra miðla.
Framvísun á slíkum verkjalyfjum hafði á nokkrum árum stóraukist og fjöldi dauðsfalla hlotist vegna vímuvanda tengdum þeim. Lyfjafyrirtækið Actavis var upprunalega íslenskt fyrirtæki undir íslensku eignarhaldi en var á þessum tíma í eigu bandarískra aðila.
Sögðust ekki ekki bera ábyrgð á misnotkun
Bandaríska lyfjaeftirlitið nálgaðist Actavis í október 2012 og óskaði eftir því að það myndi minnka framleiðslu sína á ópíóðalyfinu oxycodone um 30 til 40 prósent til að minnka magn þess í umferð.Lyfjaeftirlitið hafði áður átt svipaðar viðræður við Mallinckrodt, sem var þá stærsti framleiðandi ópíóðalyfja á bandarískum markaði.
Stjórnendur Actavis urðu ekki við því og hafa stjórnendur þess gefið út að fyrirtækið beri ekki á ábyrgð á misnotkun lyfjanna. Þó alríkislög þar í landi skyldi fyrirtækin til að fylgjast með mynstri, tíðni og magni lyfjapantana, þá geti Actavis ekki stjórnað því hvernig lyf þeirra væru á endanum notuð.
400 þúsund látist vegna ópíóða í Bandaríkjunum
Ópíóíðalyf eru tvöfalt sterkari en morfín og voru sparlega notuð af læknum lengi vel. Ástæðan var hversu ávanabindandi þau væru. Þau voru helst notuð fyrir langt leidda sjúklinga eða við líknarmeðferð. Notkunin margfaldaðist aftur á móti eftir að bandaríska lyfjafyrirtækið Purdue Pharma setti OxyContin á markað í Bandaríkjunum árið 1996.Fyrirtækið fullyrti að lítil hætta væri á að sjúklingar yrðu háðir efninu fengju þeir skrifað upp á það vegna verkja. Hundruð málsókna gegn fyrirtækinu liggja fyrir hjá bandarískum dómstólum. Talið er að um 400.000 Bandaríkjamenn hafi látið lífið af völdum of stórs skammts af ópíóðalyfum á tveimur áratugum.