„Það er vissulega ánægjulegt að fyrirtækið tilkynni það að það sé hætt í ólöglegri lánastarfsemi, þó það nú væri. Það er þó enn að innheimta ólögleg lán,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.
Smálánafyrirtækið eCommerce 2020 Aps, í eigu Kredia Group, sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem kynnt var nýtt skammtímalán á 53,7% vöxtum.
Vextirnir eru nákvæmlega innan marka laga um heildarlántökukostnað sem má aldrei verða hærri en 50 prósent af lánsfjárhæðinni ásamt stýrivöxtum Seðlabankans.
Samkvæmt tilkynningunni verður hætt að veita smálán í núverandi mynd, óvíst er hvað verður um starfsemi Hraðpeninga, Kredia, 1919 og Múla, sem hafa veitt smálán í íslenskum krónum í gegnum lén í Danmörku. Hér á landi sér fyrirtækið Almenn innheimta ehf., sem skráð er á Siglufirði, um að innheimta skuldir við smálán.

„Almenn innheimta er að innheimta ólögmætar kröfur og neita lántakendum um skýra sundurliðun á kröfum svo að það sjáist svart á hvítu hver vaxtakostnaðurinn er. Á sama tíma og þeir hóta fólki með vanskilaskráningu gefa þeir sér langan tíma til að finna út úr því hvernig krafan er tilkomin eða allt að 90 daga. Við gerum þá kröfu að fyrirtækið hætti innheimtu á þessum ólöglegu lánum í gegnum Almenna innheimtu,“ segir Brynhildur.
Ondrej Šmakal, forstjóri Kredia Group Ltd., segir í tilkynningunni að verið sé að „virða óskir og væntingar“ sem tengjast hraðri þróun á „fjártengdum vörum fyrir Norður-Evrópumarkað“. Það skal tekið fram að fyrirtækið hefur til þessa eingöngu lánað til Íslendinga og stundað markaðssetningu hér á landi, þar með talið að senda óumbeðin smáskilaboð.
Smálánafyrirtæki hafa fleiri tól en vexti, til dæmis flýtigjald eða svokallaða rafbók. Samkvæmt lögum sem Alþingi setti til höfuðs smálánafyrirtækjunum árið 2013 má heildarlántökukostnaður aldrei verða hærri en 50 prósent af lánsfjárhæðinni auk Seðlabankavaxta. Brynhildur er ekki sannfærð að lántökukostnaðurinn verði innan löglegra marka. „Miðað við reynsluna af þessu fyrirtæki þá getum við ekki ráðlagt neytendum að stunda viðskipti við það.“