Skoðun

Parmaskinkan hans Ólafs mun fást á Íslandi

Sigmar Vilhjálmsson skrifar
Ólafur Arnarson, hagfræðingur og fv. for­maður Neytendasamtakanna, setti niður penna á Vísi.is þann 21. ágúst. Greinarstúfur hans bar yfirskriftina „Hver níðist á neytendum?“. Ekki veit ég hver tilgangur þessa skrifa hans var en það er ljóst að hann hafði greinilega engan tíma til að skrifa þessa grein.

Í fyrsta lagi er FESK félagasamtök sem stofnuð eru af búgreinafélögum eggjabænda, svínabænda og kjúklingabænda. Það eru því engin fyrirtæki aðilar að FESK. Undirritaður er talsmaður FESK en ekki fyrirtækja. Ef Ólafur hefði gefið sér meiri tíma í greinina og skoðað heimasíðu FESK (www.fesk.is) þá hefði hann kannski geta sparað sér ómakið með þessum greinarstúf.

Í öðru lagi þá virðist hann ekki hafa gefið sér tíma til að kynna sér hvaða fyrirtæki og aðilar fengu þessar skaðabætur frá ríkinu vegna ólögmætra útboða á tollkvótum á árunum 2009 – 2013.  En þar sem undirritaður hefur kynnt sér málið þá munar ekki um að upplýsa um það hér að málið var rekið af lögmönnum Félags Atvinnurekenda og að þau félög sem fengu langstærstan hluta af þeim skaðabótum eru félög innan þeirra vébanda. Ekkert af þeim fyrirtækjum eru félagsmenn FESK, enda engin fyrirtæki með aðild að FESK.

Ólafur Arnarson ætti kannski að gefa sér lengri tíma til að skrifa sínar greinar. Ekki væri verra ef að þær væru stílaðar á rétta aðila og með réttum fyrirtækjanöfnum. Það er lágmarkskrafa að gæta sanngirni þegar verið er að rýna til gagns.

FESK er ekki á móti innflutningi heldur eingöngu á móti innflutningi á vörum sem við Íslendingar erum ekki færir um að framleiða sjálf í sömu gæðum og best gerist og/eða til þess að fylla uppí eftirspurn á ákveðnum vörum sem ekki er skynsamlegt að framleiða sérstaklega.

Ólafur þarf því ekki að óttast að Parma skinkan hans verði framleidd á Íslandi enda er ekki hægt að framleiða hana á Íslandi. Parma skinka er frá Parma borg í  Emilía-Rómanja héraðinu á Ítalíu og dregur skinkan nafn sitt frá Parmaborg. Nafn hennar er lögverndað. Ólafur hefði líklega geta komist að því ef hann hefði gefið sér tíma til að kynna sér það, t.d. með því að „gúúgla“ það.

Sigmar Vilhjálmsson

Talsmaður FESK,

Félags eggja-, svína- og kjúklingabænda á Íslandi. 





Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×