Þingmönnum Íhaldsflokksins sem greiða atkvæði gegn ríkisstjórn Boris Johnson, forsætisráðherra, verður sparkað úr þingflokknum og bannað að bjóða sig fram í næstu kosningum. Þessu er Johnson sagður hafa hótað samflokksmönnum sínum í aðdraganda viðburðaríkrar viku á þingi.
Búist er við því að stjórnarandstöðuflokkarnir leggi fram fjölda frumvarpa til að reyna að koma í veg fyrir að Johnson dragi Bretland út úr Evrópusambandinu án samnings í lok næsta mánaðar. Eins er mögulegt að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, leggi fram vantrauststillögu á hendur Johnson.
Reuters-fréttastofan segir að Johnson hafi hótað eigin þingmönnum hreinsunum fylgi þeir ekki flokkslínunni í atkvæðagreiðslum í vikunni. Þingmönnunum sé sagt að greiði þeir atkvæði gegn Johnson skaði þeir samningsstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart Evrópusambandinu og færi Corbyn völdin á þingi í hendur.
Staða Íhaldsflokksins á þingi er tæp. Yrði efasemdamönnum um Brexit án samnings eins og Philip Hammond, fyrrverandi fjármálaráðherra, eða David Gauke, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sparkað úr flokknum yrði að boða til kosninga.
