Stjarnan er enn með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Olísdeild kvenna í handbolta. Stjörnukonur unnu ÍBV í Vestmanneyjum í dag.
Fyrri hálfleikur var mjög jafn en undir lok hans náði Stjarnan upp tveggja marka forskoti og leiddi 11-9 í hálfleik.
Í seinni hálfleik mættu gestirnir frá Garðabæ mun sterkari til leiks og hægt og rólega sigu þær fram úr. Þegar upp úr stóð var sigurinn nokkuð þægilegur, 25-17.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir var markahæst í lið Stjörnunnar með sex mörk. Karen Tinna Demian skoraði fjögur. Í liði ÍBV skoraði Ásta Björt Júlíusdóttir sex mörk.
