Ummæli Musk vöktu mikla athygli á síðasta ári en hann og Unsworth höfðu skipst á skotum í fjölmiðlum eftir að Unsworth, sem var einn þeirra fyrstu á vettvang við björgun tælensku fótboltastrákanna sem festust í helli á síðasta ári, sakaði Musk um að nýta sér harmleikinn fyrir athygli.
Musk svaraði með því að kalla Unsworth barnaníðing (e. Pedo guy). Var hann harðlega gagnrýndur fyrir ummælin og baðst afsökunar á þeim. Sú afsökunarbeiðni virðist þó ekki hafa verið einlæg, enda hélt Musk ásökunum til streitu, meðal annars í tölvupóstum til blaðamanns Buzzfeed, líkt og Vísir hefur áður fjallað um, sem og á Twitter.
Það varð til þess að Unsworth höfðaði meiðyrðamál á hendur Musk og er það nú til meðferðar hjá dómstólum í Los Angeles í Bandaríkjunum.

„Þetta var árás á einlæga tilraun mína til þess að hjálpa krökkunum,“ sagði Musk sem lét útbúa kafbát sem átti að geta náð til þeirra sem fastir voru í hellinum. Unsworth sagði meðal annars að Musk gæti stungið kafbátinum þangað sem hann verkjar.
Nýtti Musk sér þessi ummæli Unsworth til að reyna að sýna fram á að barnaníðsummæli sín hafi ekki verið meint bókstaflega.
„Ég geri ráð fyrir að hann hafi ekki ætlað að misnota mig með kafbátinum,“ sagði Musk. „Alveg eins og ég meinti það ekki bókstaflega að hann væri barnaníðingur“.
Þá sagðist hann í fyrstu ekki hafa gert sér grein fyrir því að Unsworth hefði komið að björgun strákanna, hann hefði haldið að hann væri bara „einhver gaur“.
Baðst afsökunar
Í dómsal baðst Musk afsökunar á ummælum sínum í garð Unsworth en málsvörn Musk byggist meðal annars á því að hugtakið „Pedo guy“ sé velþekkt slangur í Suður-Afríku, þar sem Musk ólst upp. Þar merki það frekar „óhugnanlegur eldri maður“ í stað barnaníðings. Það hafi verið í þeirri meiningu sem Musk meinti ummælin.Þá viðurkenndi Musk einnig að hafa ráðið einkaspæjara til þess að rannsaka Unsworth, eftir að ljóst var að bretinn hygðist stefna Musk. Alls greiddi Musk manninum 50 þúsund dollara, um sex milljónir. Í ljós kom hins vegar að einkaspæjarinn var enginn einkaspæjari, heldur svikahrappur, sem gat ekki gefið Musk neinar upplýsingar um Unsworth.
Nánar má lesa um málaferlin á vef BBC og The Verge.