Tveir bræður eru grunaðir um að hafa drepið brúðguma í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum síðasta laugardag. Atvikið átti sér stað á giftingardegi hins látna stuttu eftir að brúðkaupsveislunni lauk.
Bræðurnir sem eru 28 ára og 19 ára gamlir hafa verið ákærðir fyrir morðið á Joseph Melgoza og líkamsárás á tvo aðra menn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í borginni Chino.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að Melgoza hafi látist eftir höfuðhögg. Ekki kemur fram hvaða vopn mennirnir notuðu þegar þeir réðust á hann en fram kemur í gögnum lögreglu að hinir mennirnir tveir hafi verið barðir með hafnaboltakylfum.
Melgoza giftist eiginkonu sinni Esther Bustamante, einungis nokkrum klukkustundum áður en bræðrunum er gert að hafa ráðist á hann.
Andy Velasquez, bróðir Melgoza, segir í samtali við CNN að mönnunum tveimur hafi ekki verið boðið í brúðkaup þeirra hjóna. Hann segist muna eftir því að hafa séð þá í brúðkaupsveislunni en að þeir hafi síðar yfirgefið hana eftir að aðili gaf sig á tal við þá.
Eftir að veislunni lauk segir hann að bræðurnir hafi snúið aftur og fljótlega hafi slagsmál brotist út í húsasundi á bak við veislusalinn.
Lögreglan fullyrðir að þar hafi þeir ráðist á Melgoza og hina tvo mennina. Þegar lögreglan var komin á vettvang var brúðguminn horfinn en hann fannst síðar við leit lögreglu í bakgarði íbúðarhúss.
Hann var þá fluttur sjúkrahús þar sem hann lést af áverkum sínum. Lögreglan telur að engin tengsl séu á milli árásarmannanna og brúðgumans. Ekki er enn vitað hvað mönnum gekk til.
Boðflennur grunaðar um að hafa drepið brúðgumann fyrir utan
