Leikhléið sem Patrekur Jóhannesson tók þegar Selfoss var fimm mörkum undir, 26-21, í þriðja leiknum gegn Haukum í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla breytti gangi mála, ekki bara í leiknum heldur í öllu einvíginu.
Leikhléið var til umræðu í annál um handboltaárið 2019 sem var sýndur á Stöð 2 Sport í gær.
„Það var alveg lygilegt og Patti fær hrós hvernig hann tæklaði það. Hann vissi nákvæmlega á hvaða hnappa hann átti að ýta á. Hann gerði þetta einstaklega vel og það var magnað hvernig þetta kveikti í þeim,“ sagði Sigursteinn Arndal, í annálnum en hann lýsti þriðja leik Selfoss og Hauka ásamt Arnari Björnssyni.
Selfoss skoraði fimm mörk í röð og jafnaði í 26-26. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 27-27 og Selfyssingar unnu svo eftir framlengingu, 30-32. Þeir skoruðu ellefu af síðustu 15 mörkum leiksins.
„Þetta er örugglega besta leikhlé sem ég hef tekið á ævinni,“ sagði Patrekur.
Selfoss tryggði sér svo sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með stórsigri í fjórða leiknum á heimavelli, 35-25.
Allir fjórir annálarnir verða sýndir á Stöð 2 Sport á morgun, gamlársdag. Dagskrána má sjá með því að smella hér.
Innslagið má sjá hér fyrir neðan.