Handbolti

Króatar Dags lentu í kröppum dansi í fyrsta leik á EM

Aron Guðmundsson skrifar
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króatíu
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króatíu Vísir/getty

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í landsliði Króatíu lentu í basli í fyrsta leik sínum á EM í handbolta gegn Georgíu í E-riðli í kvöld en sigldu að lokum heim mikilvægum þriggja marka sigri, lokatölur 32-29.

Georgía ekki hátt skrifað lið á yfirstandandi Evrópumóti á meðan að Króatar unnu til silfurverðlauna á síðasta heimsmeistaramóti fyrir ári síðan og bjuggust flestir við öruggum sigri þeirra í kvöld.

Það var hins vegar ekki í raunin og Georgíumenn, sem töpuðu í tvígang fyrir íslenska landsliðinu í undankeppni EM, létu heldur betur finna fyrir sér í kvöld.

Georgía byrjaði leikinn af krafti og þegar að fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður leiddu þeir með sex mörkum. Króatar náðu hins vegar að brúa bilið og komast yfir fyrir lok hálfleiksins en á þeim tímapunkti leiddu þeir með einu marki 15-14. 

Króatar héldu forystunni fyrstu mínútur seinni hálfleiksins en svo sigu Georgíumenn aftur fram úr.

Þegar að rétt innan við tíu mínútur eftir lifðu leiks stóðu leikar hins vegar jafnir 26-26 og voru lokamínúturnar æsispennandi. 

Það býr hins vegar seigla í leikmönnum Dags og þeir reyndust sterkari á lokametrunum og fór svo að Króatía fór með þriggja marka sigur af hólmi, 32-29 og byrjar EM á sigri. 

Mario Šoštarić var markahæstur í liði Króata í kvöld með sjö mörk. Þá skoraði Luka Cindric sex mörk. Króatar mæta Hollandi í næstu umferð á mánudaginn kemur. Hollendingar mæta Svíum seinna í kvöld í fyrsta leik liðanna á mótinu.

Evrópumeistararnir í fluggír

Í C-riðli halda ríkjandi Evrópumeistarar Frakka áfram að valta yfir andstæðinga sína. Frakkar völtuðu yfir landslið Úkraínu, 46-26 og eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar og öruggir áfram í milliriðla. Markaskorunin dreifðist ansi jafnt í liði Evrópumeistaranna en þeir Benoit Kounkoud og Dylan Nahi voru markahæsti í liði þeirra með sex mörk hvor.

Seinna í kvöld mætast Tékkar og Norðmenn í sama riðli en með sigri tryggja Norðmenn sig áfram í milliriðla og setja upp úrslitaleik við Frakka um toppsæti riðilsins í lokaumfrðinni.

Spánverjar í góðum málum

Og í A-riðli Alfreðs Gíslasonar og þýska landsliðsins höfðu Spánverjar betur gegn Austurríkismönnum og tryggðu sig þar með áfram í milliriðla. Lokatölur 30-25, fimm marka sigur Spánverja sem mæta Þjóðverjum í lokaumferðinni í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um toppsæti riðilsins takist Þjóðverjum að vinna Serba í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×