Björgunarsveitir hófu á ný leit að skipverja í Vopnafirði í morgun. Björgunarsveitin Vopni nýtur aðstoðar björgunarsveitarinnar Lífsbjargar úr Snæfellsbæ við leitina. Sérstakur Coastex-leitarprammi Lífsbjargar verður notaður í dag en á prammanum er gluggi til að skanna botn á grunnsævi.
Leitarsvæðið er hið sama og áður frá Tangasporði að Sandvík auk þess sem leitað verður í sandfjörum á svæðinu. Leitað verður á sjó í dag og meðfram strandlengjunni.
Skipverjans hefur verið saknað síðan klukkan 14 á mánudag. Umfangsmikil leit að honum hefur staðið yfir síðan.