Heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar er ekki í rénun og þvert á móti hefur útbreiðsla hans aukist víðast hvar. Smituðum hefur fjölgað í minnst 77 ríkjum heims á undanförnum tveimur vikum og en að mestu má rekja fjölgunina til Ameríku, Afríku og Asíu. Á þriðjudaginn tilkynntu ríki heimsins rúmlega 140 þúsund nýsmitaða og í gær voru þeir 166 þúsund.
Þessi tveir dagar eru meðal þeirra þriggja verstu frá því að faraldurinn hófst. Samkvæmt frétt New York Times hefur smituðum fækkað í minnst 43 ríkjum á síðustu tveimur vikum.
Í Afríku tók það um 100 daga að staðfesta hundrað þúsund smit. Næstu hundrað þúsund tóku einungis 19 daga. Líklegast má þó bæði rekja það til hraðari dreifingu Covid-19 og aukinnar skimunar.
Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum, þar sem fylgst er með opinberum tölum ríkja, hafa um það bil 8,4 milljónir smitast af veirunni og rúmlega 450 þúsund eru dánir. Útlit er þó fyrir að tala látinna sé víða mun lægri en hún á að vera.
Blaðamenn víða um heim hafa verið að bera meðaltal látinna yfir nokkur ár við saman við fjölda látinna á undanförnum mánuðum til að reyna að fá betri yfirsýn yfir raunverulegan fjölda látinna. Sagan er víðast hvar sú sama. Fleiri eru dánir en yfirvöld segja og munar miklu sum staðar.
Rannsókn BBC vísar til að mynda til þess að minnst 130 þúsund fleiri hafi dáið á heimsvísu en opinberar tölur segja til um.