Deildar- og bikarmeistarar Stjörnunnar hafa samið við slóvenskan leikmann til að fylla skarð Nicks Tomsick sem er farinn til Tindastóls.
Eftirmaðurinn heitir Mirza Sarajlija og er 29 ára bakvörður. Á síðasta tímabili lék hann í næstefstu deild í Rússlandi.
Auk Tomsick eru Kyle Johnson og Urald King farnir frá Stjörnunni. Allir íslensku leikmenn liðsins verða áfram og þá hefur Stjarnan fengið tvíburana Hilmi og Huga Hallgrímssyni frá Vestra.
Stjarnan fékk einnig tvo nýja aðstoðarþjálfara; Inga Þór Steinþórsson og Danielle Rodriguez.
Á síðasta tímabili varð Stjarnan deildar- og bikarmeistari en ekki var leikið um Íslandsmeistaratitilinn vegna kórónuveirufaraldursins.