Sevilla er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir sigur á Wolves, 0-1, í Duisburg í kvöld.
Argentínumaðurinn Lucas Ocampos skoraði eina mark leiksins með skalla eftir fyrirgjöf landa síns, Évers Banega, á 88. mínútu.
Þátttöku Wolves í Evrópudeildinni er því loksins lokið en liðið lék sinn fyrsta leik í keppninni á tímabilinu 25. júlí á síðasta ári.
Á 12. mínútu braut Diego Carlos á Adama Traoé innan vítateigs eftir mikinn sprett Spánverjans. Raúl Jímenez fór á punktinn en Bono varði slaka spyrnu hans.
Sevilla var miklu meira með boltann en gekk illa að opna vörn Wolves. Úlfarnir sóttu nánast ekki neitt í leiknum og virtust vera sáttir með stöðuna.
Allt benti til þess að framlengja þyrfti leikinn, eða þar til Ocampos steig fram og skoraði sigurmark Sevilla. Þetta var sautjánda mark hans á tímabilinu.
Sevilla mætir Manchester United í undanúrslitunum í Köln á sunnudaginn.
Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Evrópudeildinni á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Köln 21. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.