Skoðun

Við þurfum að hlusta bæði á for­eldra og leik­skóla

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar

Opnunartími leikskólanna hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Þetta er hagsmunamál sem snertir marga og því mikilvægt að sú ákvörðun verði tekin að vel undirbúnu mál og hlustað sé bæði á foreldra og leikskólana. 

Í samráði við stýrihóp um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík mun borgarráð ræða í dag tillögu um að ráðist verði í ítarlegt jafnréttismat á áhrifum þess ef opnunartími leikskóla verður breyttur og vistunartími barna takmarkaður við 9 klst. á dag, í samræmi við niðurstöður jafnréttisskimunar sem þegar hefur verið gerð. Í þeirri vinnu er mikilvægt að hlusta á raddir foreldra leikskólabarna og sérstaklega þá foreldra sem eru í dag með dvalarsamninga eftir kl. 16.30. Það þarf að skoða þann hóp sérstaklega sem myndi eiga erfitt að mæta slíkri breytingu á opnunartíma. Í samræmi við leiðbeiningar um gerð jafnréttismats er einnig mikilvægt að fá mat á því hvort grípa megi til mótvægisaðgerða vegna tillögunnar. Að þessu loknu mun borgarráð taka tillöguna til endanlegrar meðferðar og taka ákvörðun á grundvelli faglegrar greiningar og mun hún ekki taka gildi fyrr. Það er eðlilegt ferli ákvarðana hjá Reykjavíkurborg.

Samþykkt skóla- og frístundaráðs um opnunartíma byggir á greiningu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík. Markmið þess hóps var að finna leiðir til að búa leikskólunum gott umhverfi, bæði fyrir starfsfólk og börn, með fagmennsku í fyrirrúmi, sem er eitt af þeim meginverkefnum sem kynnt var í meirihlutasáttmálanum. Telur stýrihópurinn að stytting opnunartíma muni draga úr álagi á börn, stjórnendur og aðra starfsmenn og styrkja faglegt starf þar sem skipulag daglegs starfs og mönnun leikskólans verði einfaldari. 

Það er mikilvægt verkefni að gera leikskólana að aðlaðandi starfsvettvangi til að foreldum í Reykjavík sé tryggð áframhaldandi góð þjónusta og börnum tryggð sem best náms-, uppeldis- og leikskilyrði. Það þarf því að hlusta á áhyggjuraddir leikskólastjóra um álag og skort á leikskólakennurum. Það þarf líka að hlusta á foreldra sem þurfa að bregðast við breytingum á opnunartímum. Því verður óskað eftir umsögnum frá hagsmunasamtökum foreldra, svo sem Félagi leikskólabarna í Reykjavík og Heimili og skóla. Það verður einnig óskað eftir umsögnum frá hagsmunasamtökum stjórnenda og starfsmanna leikskólanna.    

Opnunartími leikskólanna er hagsmunamál sem snertir marga og því er mikilvægt að ákvörðun verði tekin að vel undirbúnu máli, þar sem hlustað er bæði á foreldra og leikskólana og komist að niðurstöðu sem er best fyrir alla. Við viljum brúa bilið, bæta starfsumhverfi og bjóða fjölskyldum í borginni góða þjónustu. 

Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×