Skoðun

Heil­brigðis­kerfi fyrir alla

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Það skiptir okkur öll máli að heilbrigðiskerfið virki og þjónustan sé til reiðu þegar við þurfum á henni að halda. því ekki undarlegt að umræða um heilbrigðismál verði oft tilfinningaþrungin. Mikil umræða hefur farið fram um heilbrigðisþjónustu í landinu undanfarnar vikur og mikið af þeirri umræðu snúist um Bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi og vanda Landspítalans í heild.

Undanfarin misseri hafa framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu á langflestum stigum verið aukin stórlega. Slíku var enda heitið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og við það hefur verið staðið. Það var líka nokkuð samdóma álit þeirra sem buðu fram í síðustu Alþingiskosningum að þörf væri á auknum framlögum til kerfisins. Menn vissu að við höfðum dregist aftur úr nágrannalöndunum þegar miðað var við framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu. Við þessu hefur ríkisstjórnin brugðist með markvissum hætti. 

Hafin er bygging nýs Landspítala við Hringbraut eftir að margra ára þref um staðsetningu hafði tafið fyrir. Nýtt Sjúkrahótel með glæsilegri aðstöðu er risið og hefur verið tekið í notkun.  Framlög til rekstrar Landspítalans frá 2017 (önnur en til bygginga og launaleiðréttinga) hafa vaxið um tólf prósent á þessum þremur árum, leiðrétt fyrir verðlagsbreytingar. Framlög til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist um tæp 25 prósent. Þá má ekki gleyma þeirri áherslu sem lögð hefur verið á að lækka kostnaðarþátttöku, einkum viðkvæmustu hópanna.

Þá skiptir ekki minnstu máli að nú er unnið eftir Heilbrigðisstefnu sem Alþingi samþykkti samhljóða s.l. vor. Stefnan gildir til 2030, og áhersla m.a. lögð á rétta þjónustu á réttum stað, gegnsæi í þjónustukaupum, menntun heilbrigðisstétta og aðgengi að þjónustu.

Áframhaldandi uppbygging heilbrigðisþjónustu á Íslandi er sameiginlegt verkefni alls samfélagsins.  Öflug heilbrigðisþjónusta og aðgengi að henni á jafnræðisgrunni eru grundvallarmannréttindi.  Núverandi ríkisstjórn hefur stigið mikilvæg skref í þá átt en auðvitað eru, og verða alltaf, eftir verkefni sem þarf að leysa. Við þurfum að halda áfram að hlú að því almannaþjónustukerfi sem heilbrigðiskerfið okkar er.

Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það erum við að tryggja.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×