Saksóknarar í Chicago í Bandaríkjunum hafa bætt við ákæru gegn tónlistarmanninum R. Kelly vegna kynferðisbrota gegn stúlku sem var fjórtán eða fimmtán ára þegar brotin voru framin á 10. áratug síðustu aldar. Brot gegn öðru meintu fórnarlambi hans voru á sama tíma fjarlægð úr ákærunni án skýringa.
Kelly er ákærður fyrir kynferðislega misnotkun, barnaklám, mannrán og að hindra framgang réttvísinnar í New York, Chicago og Illinois en hefur lýst sig saklausan af öllum ákæruliðum. Saksóknararnir í málinu gegn honum í Chicago lögðu fram uppfærða ákæru í gær sem felur nú í sér brot gegn konu sem fannst nýlega, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Konan er ekki nafngreind en Kelly, sem er 53 ára gamall, er sakaður um að átt í kynferðislegum athöfnum með henni seint á 10. áratugnum.
Saksóknararnir krefjast nú jafnframt upptöku á eignum framleiðslufélags Kelly og annars fyrirtækis sem umboðsmaður hans á. Ákæran gegn Kelly í Chicago varðar kynferðisbrot gegn fimm stúlkum. Hann er einnig sakaður um að hafa tekið brotin upp á myndband og notað þau til að kúga stúlkurnar til að þegja um þau.