Spænski óperusöngvarinn Plácido Domingo hefur beðið fjölda kvenna afsökunar fyrir að hafa „valdið þeim sársauka“, en þær hafa sakað hann um kynferðislega áreitni.
Domingo lét af embætti sem framkvæmdastjóri Óperunnar í Los Angeles á síðasta ári eftir að fjölmargar konur ásökuðu hann um ósæmilegt athæfi. Alls hafa nú tuttugu konur nú sakað söngvarann um kynferðislega áreitni, en hann hefur hafnað ásökununum að því er fram kemur í frétt BBC.
„Ég virði það að þessar konur hafi loks treyst sér til að tjá sig opinberlega um málið,“ segir í yfirlýsingu frá Domingo. „Ég vil að þær viti að mér þykir miður að hafa valdið þeim sársauka. Ég viðurkenni ábyrgð gjörða minna, og ég hef vaxið vegna þessarar reynslu.“
Yfirlýsingin kemur í kjölfar rannsóknar bandarísk stéttarfélags óperusöngkvenna, en kvartanir höfðu borist stéttarfélaginu vegna hegðunar Domingo.
Fyrst var greint frá ásökununum á hendur Domingo í ágúst síðastliðinn en atvikin sem um ræðir eiga að ná aftur til níunda áratugarins. Segir í niðurstöðukafla rannsóknarteymis stéttarfélagsins að Domingo hafi ítrekað þrýst á söngkonur til kynferðislegs samneytis og skert atvinnumöguleika þeirra sem höfnuðu honum.
Hinn 79 ára Domingo er einn af vinsælustu óperusöngvurum sögunnar. Hann hefur verið giftur sópransöngkonunni Marta Ornelas frá árinu 1962.