Íslenska ríkið greiddi Icelandair ehf. alls 2,9 milljarða í stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti vegna 1.889 starfsmanna félagsins.
Þetta kemur fram á vef Skattsins þar sem birt er yfirlit yfir þá rekstraraðila sem fengið hafa greiddan stuðning vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, þó á listanum megi aðeins finna rekstraraðila með fleiri en tuttugu starfsmenn, vegna persónuverndarsjónarmiða.
Um er að ræða uppsafnaða fjárhæð vegna launakostnaðar í maí, júní og júlí á þessu ári en Flugleiðahótel kemur næst með 452 milljóna króna stuðning vegna 480 starfsmanna.
Íslandshótel er þar á eftir með 435 milljón króna stuðning vegna 467 starfsmanna. Þar á eftir Bláa lónið með 425 milljón króna stuðning vegna 540 starfsmanna.
Raunar raðast ferðaþjónustufyrirtæki í flest toppsætin á lista Skattsins sem sjá má hér.