Leiðtogar samningsteyma beggja hliða óskuðu eftir því að Johnson og Von Der Leyen myndu stíga inn í þar sem að samningsaðilum tókst ekki að leysa úr stórum deilumálum í vikunni. Samningsnefndirnar hafa fundað linnulaust undanfarna viku í Lundúnum.
Það verður æ ólíklegra að samningsaðilum takist að komast að samkomulagi áður en Bretland yfirgefur innri markað Evrópu þann 31. desember næstkomandi. Samkomulag hefur náðst á flestum sviðum en enn deila samningsaðilar um grundvallaratriði.
Sérstaklega er deilt um fiskveiðiheimildir, samkeppnislög og eftirfylgni samningsins sem nú er samið um.
Heimildamenn breska ríkisútvarpsins í samningsteymunum lýstu því yfir í vikunni að hverfandi líkur væru á því að samningar næðust fyrir áramót. Að sögn heimildamanns í samningsteymi Breta hafði Evrópusambandið bætt við nýjum atriðum í samninginn á síðustu stundu.