Fundað var alla helgina og heimildir Breska ríkisútvarpsins herma að stutt sé í samkomulag um fiskveiðar. Breska forsætisráðuneytið segir það þó ekki rétt og ljóst að hart er tekist á í viðræðunum. Aðalsamningamaður Breta, Frost lávarður mun halda viðræðum sínum við kollega sinn hjá ESB Michel Barnier í dag og þá mun Boris Johnson forsætisráðherra Breta einnig ræða við Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ef ekki nást samningar mun landamæraeftirlit og tollaálögur verða teknar upp á milli Bretlands og ESB og hefur breska viðskiptaráðið varað við því og sagt breska verslunarmenn illa undirbúna undir þær breytingar.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Johnson og von der Leyen kom fram að enn sé hart tekist á um þrjú mikilvæg atriði; jöfn samkeppnisskilyrði, stjórnskipulag og fiskveiðar.