Búist er við að leyfi fyrir bóluefninu, sem ber formlega heitið „Comirnaty“, verði gefið út í Evrópu strax í kvöld. Íslenskt markaðsleyfi verður í kjölfarið gefið út. Búist er við að leyfið á Íslandi fáist eigi síðar en á Þorláksmessu, 23. desember, að því er fram kemur á vef Lyfjastofnunar.
Þar með mega bólusetningar með efninu hefjast hér á landi en fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag að fyrstu skammtar af efninu séu væntanlegar til landsins 28. desember næstkomandi.
Bóluefninu er sprautað í handlegg tvisvar með minnst 21 dags millibili. Ísland fær tíu þúsund skammta nú í desember, sem duga fyrir um fimm þúsund manns. Heilbrigðisstarfsfólk í fremstu framlínu og íbúar á öldrunarstofnunum fá fyrstu bólusetningu. Alls hefur Ísland tryggt sér skammta af bóluefninu fyrir 85 þúsund manns, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu.
Bóluefni Pfizer og BioNTech er það fyrsta sem fær skilyrt markaðsleyfi innan ríkja Evrópusambandsins. Þegar er byrjað að bólusetja með efninu í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.
It’s a decisive moment in our efforts to deliver safe & effective vaccines to Europeans!
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) December 21, 2020
The @EMA_News just issued a positive scientific opinion on the #BioNTech / @pfizer vaccine.
Now we will act fast. I expect a @EU_Commission decision by this evening.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir á Twitter í dag að samþykki Lyfjastofnunar Evrópu marki tímamót í dreifingu „öruggra og virkra“ bóluefna til Evrópubúa. Hún reiknar með að markaðsleyfi fáist formlega í kvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.