Samningurinn er sagður telja eitt þúsund blaðsíður með fjölda viðbótum og neðanmálsgreina. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, var með samninginn í jólaávarpi til Breta í gær og sagði hann tryggja viðskipti og ferðalög Breta innan Evrópu.
„Í kvöld hef ég smá gjöf fyrir alla sem eru að leita að einhverju til að lesa í þreyttum hádegisverði eftir jól, og hér er það,“ sagði Johnson og hélt á samningnum. Kvaðst hann vera fullviss um að samningurinn myndi veita viðskiptalífinu, ferðalöngum og fjárfestum ákveðna vissu.
Viðskipti verða áfram án tolla milli Breta og aðildarríkja Evrópusambandsins þrátt fyrir að nú verði um tvo aðskilda markaði að ræða. Þá mun sjálfstæður gerðardómur skera úr um ágreiningsmál sem gætu komið upp.
Horfa til framtíðar
Leiðtogar Bretlands og Evrópusambandsins keppast við að hrósa sigri í samningaviðræðunum. Johnson sagður boða endurfæðingu Bretlands utan Evrópusambandsins á meðan leiðtogar Evrópusambandsins eru sagðir hafa keppst við að minnka skaðann af útgöngu Breta, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins
„Við höfum náð stjórn á lögum okkar og örlögum,“ sagð Johnson á blaðamannafundi fyrir utan Downing-stræti í gær. Hann ítrekaði þó að Bretland yrði alltaf hluti af Evrópu í landfræðilegum, menningarlegum og sögulegum skilningi. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði samninginn sanngjarnan og nú væri tími til þess að horfa til framtíðar.

Þrátt fyrir að samningurinn sé stór áfangi í útgönguferli Breta er verkefninu ekki lokið. Enn á eftir að fullgilda samninginn og þarf bæði breska þingið og meðlimir Evrópusambandsins að samþykkja endanlega útgáfu.
Allar þjóðir sambandsins hafa neitunarvald en samkvæmt breska ríkisútvarpinu er ekki búist við því að þær nýti sér það þar sem samningamenn sambandsins héldu aðildarríkjum upplýstum á meðan ferlinu stóð. Evrópuþingið mun svo afgreiða samninginn snemma á næsta ári.