Í yfirlýsingu frá drottningunni segir að nokkur atriði sem hafi komið fram í umdeildu viðtali við hjónin sem sýnt var á sunnudagskvöldið hafi valdið áhyggjum og þá sérstaklega það sem varðar kynþátt Meghan.
Drottningin segir að þó minni fólks geti verið mismunandi, séu ummæli hjónanna tekin mjög alvarlega og að konungsfjölskyldan muni takast á við þau í einrúmi.
Þá segir drottningin að Harry, Meghan og sonur þeirra Archie verði ávallt elskaðir meðlimir fjölskyldunnar.
Yfirlýsingin sem drottningin sendi frá sér eru fyrstu opinberu viðbrögð konungsfjölskyldunnar við viðtalinu.
NEW: The Queen responds to Meghan and Harry interview pic.twitter.com/7eeLnvzhoa
— Nancy Chen (@NancyChenNews) March 9, 2021
Fram hefur komið í fjölmiðlum að krísufundir hafi verið haldnir innan konungsfjölskyldunnar í kjölfar birtingar viðtalsins, sem hefur vakið mikla athygli um allan heim.
Þar kom meðal annars fram að meðlimur konungsfjölskyldunnar hafði velt upp hver húðlitur Archie yrði og að Meghan hefði glímt við sjálfsvígshugleiðingar á meðan hún gekk með Archie. Henni hefði hins vegar verið neitað um hjálp þegar hún leitaði eftir henni.