Hann kallar eftir þessu í pistli sem hann birtir í Fréttablaðinu í dag eftir að nokkur félög hafa stigið fram og gagnrýnt útspil dómsmálaráðherra að fá Jón Steinar til að aðstoða ráðuneytið við vinnu að umbótum í réttarkerfinu.
Þeir sem gagnrýnt hafa ráðherrann hafa sagt útspilið kaldar kveðjur til kvenna og rifjuð hafa verið upp ummæli sem þykja óþolendavæn.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, eignaðist, líkt og kunnugt er, barn á dögunum. Hún sagðist því vera upptekin af „miklu merkilegri manni en Jóni Steinari þessa dagana“.
Í ljósi þess að hún sinni nú 19 daga gömlum syni sínum hafi hún mikilvægari hnöppum að hneppa en að munnhöggvast við „hörundsáran flokksgæðing“. Ljóst sé að bæði afstaða hans og hennar sjálfrar liggi fyrir.
Þórhildi Sunnu leikur hugur á að vita hvort umrædd umbótavinna Jóns Steinars í réttarkerfinu lúti einnig að kynferðisbrotum.
„Hann vill meina það, skipunarbréfið hans ber þess merki en dómsmálaráðherra segir svo ekki vera. Hver er að ljúga? Ráðherra, skipunarbréfið eða Jón Steinar?
Og er það ekki afhjúpandi að dómsmálaráðherra taki það sérstaklega fram að hún vilji ekki að hann hlutist til um kynferðisbrotamál? Jón ætti öllu heldur að halda opinn fund með ráðherra til þess að útkljá þessa mótsögn,“ skrifar Þórhildur Sunna.