Samningurinn kveður á um að verksmiðju í Þýskalandi verði leyft að framleiða 2,5 milljónir skammta af efninu, ef það hlýtur samþykki Lyfjastofnunar Evrópu.
Þegar samþykkið liggur fyrir verður Bæjurum því ekkert að vanbúnaði og þeir munu geta framleitt bóluefnið sjálfir, sem verktakar fyrir Spútnik V.
Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, segir að skammtarnir ættu að koma í hlut íbúa sambandslandsins í júlí ef áform ganga eftir.
Sagt er frá þessu í frétt Die Welt.
Nokkur ríki Evrópusambandsins hafa samþykkt Spútnik V í gegnum eigin lyfjastofnanir en Þjóðverjar bíða samþykkis Lyfjastofnunar Evrópu. Virkni Spútnik V er tæplega 92% samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birt var í The Lancet í síðasta mánuði.