Embætti umboðsmanns í Kólumbíu segir að auk þeirra sautján sem hafi látist í átökum við lögreglu hafi átta hundruð manns hið minnsta slasast. Mótmælendur og mannréttindasamtök hafa sakað lögreglu um að hafa beitt óþarfa hörku í samskiptum við mótmælendur.
Iván Duque, forseti landsins, tilkynnti á sunnudag að breytingatillögurnar umdeildu hafi verið dregnar til baka, en þær fólu í sér aukna skattbyrði þeirra lægst launuðu og fólks með meðaltekjur.
Umboðsmaður í Kólumbíu er opinbert embætti sem falið er að tryggja vernd mannréttinda og borgaralegra réttinda landsmanna.
Mótmælin hófust á miðvikudaginn í síðustu viku þegar stærstu stéttarfélög landsins hvöttu til allsherjarverkfalls til að mótmæla lagabreytingunum sem ríkisstjórn sagði nauðsynlegar til að koma landinu upp úr kreppunni. Verg landsframleiðsla í Kólumbíu dróst saman um 6,8 prósent á síðasta ári, sér í lagi vegna áhrifa heimsfaraldursins.
Lögregla í Kólumbíu hefur handtekið fjögur hundruð manns hið minnsta í mótmælaöldunni þar sem kveikt hefur verið í um tuttugu strætisvögnum og skemmdarverk hafa verið unnin á fjölda verslana og fyrirtækja.