„Þetta er gríðarlega stór áfangi fyrir félagið. Fólk er búið að vinna hörðum höndum að þessu í marga mánuði. Þetta er ótrúlega flókið og langt ferli en þetta er mjög stór dagur fyrir okkur í Play,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við fréttastofu.
Flugfélagið tilkynnti skömmu fyrir hádegi að flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu væri í höfn. Fyrsta flugvél félagsins var afhent í Houston í Texas í Bandaríkjunum í gærkvöldi og kemur til Íslands í byrjun júní. Hún verður þvínæst máluð í einkennislitum Play.
„Og við erum að taka fyrsta flugið rétt fyrir lok júnímánaðar,“ segir Birgir.
Og hvert verður farið?
„Fyrsta flugið verður til Stansted í London og svo fáum við fleiri flugvélar í júlí og aukum starfsemina jafnt og þétt í sumar.“
Birgir sagði í Víglínunni á Stöð 2 í byrjun maí að á meðal áfangastaða Play yrðu stærstu borgir í Evrópu; Lundúna, Kaupmannahafnar og Parísar, auk Alicante og Tenerife. Þá kæmi Bandaríkjaflug jafnvel til greina í lok árs.