Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í stöðufærslu á Facebook í gærkvöldi. Greint var frá því í gær að Benedikt hefði sagt sig úr framkvæmdastjórn flokksins og þá útilokaði hann ekki í samtali við Vísi að stofna nýjan stjórnmálaflokk.
Í færslu sinni segir Jón Steindór meðal annars að þegar Benedikt lét af formennsku flokksins hafi fylgi hans verið 3,4 prósent. Þingflokkurinn og öflug grasrót hafi rifið fylgi flokksins upp í 6,7 prósent í kosningunum og fylgið síðan mælst á bilinu 9 til 12 prósent í könnunum.
Jón Steindór segir uppstillingarnefndir Viðreisnar hafa unnið vanþakklátt starf af stakri prýði og slær á samsæriskenningar um að körlum hafi verið raðað í efstu sæti landsbyggðarkjördæmanna til að útiloka að Benedikt fengi ósk sýna uppfyllta um forystusæti í einhverju kjördæmanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu.
„Fyrrverandi formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, hefur sagt að hugsjónir og stefna flokksins séu stærri en hagsmunir einstaklinga. Því er ég hjartanlega sammála. Ég vona og trúi að Benedikt sé enn sama sinnis. Þess vegna hef ég enga trú á öðru en að hann muni fyrr en seinna lýsa yfir fullum stuðningi við flokkinn sem hann átti svo stóran þátt í að skapa, hvetji allt sitt lið til þess að koma á fullu inn í baráttuna fyrir sameiginlegum hugsjónum og tryggi Viðreisn sem mest fylgi í komandi kosningum. Geri hann það ekki er ég hræddur um að eigin hagsmunir hans blindi honum sýn og hann sjái ekki lengur þá almannahagsmuni sem við ætluðum saman að setja ofar sérhagsmunum.“