Poppvélin Camilla poppaði fyrir gesti Bíó Paradísar frá árinu 1998 allt þar til hún poppaði sinn síðasta poppskammt í fyrra.
Aðstandendur Bíó Paradísar óskuðu eftir tillögum að nafni á nýju poppvélina á samfélagsmiðlinum Facebook. Alls bárust hátt í sexhundruð tillögur og eftir mikla yfirlegu varð nafnið Maísól Camilludóttir fyrir valinu.
Sigríður Dagbjartsdóttir átti vinningstillöguna en hún fékk að launum gjafabréf í Bíó Paradís fyrir tvo ásamt poppi og bjór eða vínglasi. Aðspurð að tilurð nafngiftarinnar sagði hún að henni hefði dottið þetta strax í hug þegar hún hugsaði um poppmaís. „Þetta var bókstaflega það fyrsta sem ég hugsaði,“ sagði Sigríður þegar hún kom að sækja vinninginn í Bíó Paradís.
Aðstandendur Bíó Paradísar þakka frábærar tillögur að nöfnum fyrir poppvélina, og hvetja alla til að koma sem fyrst í paradís til að sjá Maísól í „aksjón.“