Markmið Istanbúl-samningsins er að tryggja öryggi kvenna og berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Yfirvöld í Tyrklandi tilkynntu það í vor að þau myndu segja sig frá samningnum en það gerðist formlega í dag. Meðal rakanna sem Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, bar fyrir sig var að Tyrkland myndi beita lögum landsins til að vernda rétt kvenna. Fréttastofa Reuters greinir frá.
„Það verður ekki þaggað niður í okkur, við munum ekki hræðast, við munum ekki gefast upp,“ kyrjuðu hundruð kvenna sem söfnuðust saman í Ankara. „Við gefumst ekki upp á Istanbúl-samningnum,“ var meðal þess sem stóð á flöggum sem þær héldu uppi.
Meira en þúsund, flest konur, mótmæltu í miðborg Istanbúl þrátt fyrir mikla viðveru lögreglu, og smærri mótmælahópar komu saman í öðrum stórum borgum víðs vegar um landið.
Erdogan sagði í ræðu sem hann flutt í dag að ákvörðunin væri ekki skref aftur á bak í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.
„Barátta okkar hófst ekki með Istanbúl-samningnum og mun ekki enda nú þegar við höfum dregið okkur frá honum,“ sagði hann.