Þetta kemur fram í viðtali Deadline við Cuoco sem árum saman lék Penny í Big Bang Theory. Hún leikur aðalhlutverkið í þáttunum Flight Attendant auk þess sem að hún framleiðir þættina. Fyrsta þáttaröðin hefur fengið góðar viðtökur.
Þættirnir voru nýlega tilnefndir til Emmy-verðlauna sem bestu gamanþættirnir, auk þess sem að Cuoco fékk tilnefningu sem besta leikkona í gamanþáttum fyrir leik hennar í þáttunum. Alls fékk fyrsta þáttaröðin níu tilnefningar til Emmy-verðlauna.
Í þáttunum leikur Cuoco flugfreyju sem glímir við áfengisvandamál. Tökur á þáttaröð tvö hefjast í september og greinir Deadline frá því að Cuoco vilji gjarnan koma til Íslands til þess að taka upp þátt í annarri þáttaröðinni, það sé þó háð því að kórónuveirufaraldurinn setji ekki strik í reikninginn.